Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II., tilkynntu í gær að fjárfestar hefðu óskað eftir að skrá sig fyrir 21 milljón dala, eða sem nemur 2,7 milljörðum króna, í beinni hlutafjáraukningu (PIPE-fjármögnun) í lokuðu útboði í tengslum við fyrirhugaða sameiningu fyrirtækjanna. Í fréttatilkynningu segir að félögin hafi ákveðið að stækka 60 milljarða króna fjármögnunina sem tilkynnt var um í byrjun desember .

Hlutafjáraukningin, sem nemur nú samtals um 175 milljónum dala og samanstendur af almennum hlutabréfum að andvirði 10 dala á hlut, „er drifin af umframeftirspurn íslenskra fjárfesta fyrir milligöngu Arctica Finance, Arion banka og Landsbankans,“ segir í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir að SPAC-samruninn skili Alvotech 475 milljónum dala, eða um 61,3 milljörðum króna (ef gert er ráð fyrir engum innlausnum). Þetta felur í sér 250 milljóna dala innspýtingu reiðufjár sem kemur úr sjóðum Oaktree II, yfir 175 milljónir dala með beinni hlutafjáraukningu (PIPE-fjármögnuninni) og 50 milljóna dala frá núverandi hluthöfum sem þeir fjármögnuðu fyrir árslok 2021. Áætlað heildarvirði sameinaðs fyrirtækis er áætlað um 2,25 milljarðar dala, eða um 290 milljarðar króna.

Sjá einnig: Virði Alvotech allt að fjórfaldist á 3 árum

Meðal fjárfesta sem hafa tekið þátt í fjármögnun Alvotech í tengslum við samrunann eru Suvretta Capital, Athos (fjárfestingafélag Strüngmann-fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek Holdings, Farallon Capital Management og Sculptor Capital Management.

Hlutafjáraukningin er gerð samhliða samrunaferli því sem Alvotech og Oaktree II eru í og háð samþykki hluthafa Oaktree II um samrunann og öðrum skilyrðum um viðskiptin. Þegar samruninn er að fullu genginn í gegn er áætlað að viðskipti með hlutabréf sameinaðs fyrirtækis fari fram á NASDAQ í Bandaríkjunum undir auðkenninu „ALVO“. Jafnframt er stefnt að tvískráningu á First North-markaðinn á Íslandi. Gert er ráð fyrir að samruninn gangi í gegn á fyrri helmingi ársins 2022.

Róbert Wessman, stjórnarformaður og stofnandi Alvotech:

„Þessi hlutafjáraukning er til marks um þann mikla áhuga sem langtímafjárfestar hafa sýnt okkur nú þegar við vinnum áfram að sameiningunni við Oaktree II. Það er ánægjulegt að sjá áframhald þessarar jákvæðu þróunar nú í ársbyrjun 2022 og við hlökkum til að vinna áfram að því markmiði okkar að færa sjúklingum um allan heim líftæknihliðstæðulyf í hæsta gæðaflokki og á góðu verði.“

Mark Levick, framkvæmdastjóri Alvotech:

„Alvotech er vel í stakk búið til áframhaldandi fjárfestingar í framtíðarvöruframboði á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Við erum afar ánægð með framgang hlutafjáraukningarinnar, sem endurspeglar tryggð fjárfesta við markmið okkar um bætt aðgengi líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga.“