Alvotech hefur lagt inn umsókn til Nasdaq Iceland um töku hlutabréfa fyrirtækisins til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar en líftæknilyfjafyrirtækið er nú skráð á íslenska First North-markaðnum. Umsókn Alvotech bíður nú samþykkis Nasdaq Iceland, að því er kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gærkvöldi.

Alvotech var skráð í kauphöll í júní með tvískráningu á Nasdaq kauphöllina í Bandaríkjunum og First North markaðinn á Íslandi, sem alla jafna er ætlaður minni fyrirtækjum.

Stjórn Alvotech samþykkti áætlun um að undirbú skráningu á aðalmarkaðinn um miðjan ágúst síðastliðinn. Við það tilefni sagði félagið að með skráningu á aðalmarkað vilji það ná til breiðari hóps fjárfesta og eiga möguleika á að vera meðal skráðra fyrirtækja hér á landi sem komast inn í nokkrar nýmarkaðsvísitölur hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell.

„Við erum mjög spennt fyrir því að hefja umsóknarferlið til að færa viðskipti með hlutabréf í Alvotech yfir á Aðalmarkaðinn á Íslandi, eftir að við náðum þeim áfanga að vera fyrsta íslenska fyrirtækið sem skráð er samtímis í Bandaríkjunum og á Íslandi,“ sagði Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, í ágúst.