*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 6. nóvember 2019 13:42

Alvotech semur við Stada um 7 lyf

Stada semur um markaðssetningu lyfja Alvotech inn á markað sem nemu 6 þúsund milljörðum króna.

Ritstjórn
Róbert Wessman fyrir miðju, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, Mark Levick til hægri, forstjóri Alvotech og Peter Goldsmith forstjóri STADA.
Aðsend mynd

Alvotech og alþjóðlega lyfjafyrirtækið Stada Arzneimittel hafa gert samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu sjö líftæknilyfja Alvotech á öllum helstu mörkuðum í Evrópu. Samningur tryggir Stada markaðsleyfi fyrir lyf Alvotech þegar þau koma á markað. Umrædd lyf seljast fyrir rúmlega sex þúsund milljarða króna á ári á heimsvísu eða um 50 milljarða Bandaríkjadala og eru notuð notuð til meðferðar á erfiðum sjúkdómum, eins og t.d. gigt, psoriasis og krabbameini.

Peter Goldschmidt forstjóri Stada segir í tilkynningu að um sé að ræða einn stærsta samstarfssamning sem gerður hefur verið á þessu sviði í heiminum. Hann segir jafnframt ánægjulegt að geta aukið aðgengi sjúklinga að hágæða lyfjum, lækkað lyfjaverð og bætt lífsgæði sjúklinga með lyfjum Alvotech.

„Þetta er tímamótasamningur sem talinn er vera einn sá stærsti á okkar sviði í heiminum. Samningur við STADA er mikilvægt skref í uppbyggingu Alvotech og sýnir það traust sem stór alþjóðleg lyfjafyrirtæki sýna okkur, sem hafa keppst við að tryggja sér aðgang að okkar þróunarstarfi,“ segir Róbert Wessman stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.

„Á árinu höfum við gert mikilvæga samstarfssamninga við leiðandi fyrirtæki í Japan, Kína, Tyrklandi, Kanada og nú við STADA fyrir alla stærstu markaði Evrópu, Í Kína erum við einnig að byggja stóra lyfjaverksmiðju sem mun þjónusta þennan næst stærsta lyfjarmarkað í heiminum.“

Mark Levick forstjóri Alvotech segir STADA mjög öflugan og traustan samstarfsaðila. „STADA hefur verið í hópi öflugustu samheitalyfjafyrirtækja í Evrópu um langt skeið og þeir hafa sölunet og þekkingu á þessu sviði sem tryggir okkur aðgang að öllum helstu mörkuðum álfunnar,“ segir Levick.

Vinna að lausnum á sjálfsofnæmi og krabbameini

Alvotech vinnur að þróun og framleiðslu líftæknilyfja sem eru notuð til meðferðar á erfiðum sjúkdómum, eins og ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum og krabbameini. Þróunar- og framleiðslusetur fyrirtækisins á Íslandi er búið fullkomnustu tækjum og búnaði og hefur fyrirtækið nú þegar fengið framleiðsluleyfi og gæðavottun. Hátæknisetrið er hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni og er um 13 þúsund fermetrar að stærð.

Setrið var formlega opnað í júní 2016 og er Alvotech í nánu samstarfi við háskólasamfélagið um mótun menntunar á sviði líftækni og lyfjavísinda ásamt ýmsum öðrum verkefnum. Markmið fyrirtækisins er að auka aðgengi og lífsgæði sjúklinga um allan heim með þróun og framleiðslu nýrra líftæknilyfshliðstæðna (e.biosimilars) sem koma á markað þegar einkaleyfi renna út.