*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 1. nóvember 2021 11:06

Alvotech stækkar við sig

Til að styðja við framleiðslu á fyrstu vöru Alvotech, AVT02, tekur fyrirtækið í notkun nýtt húsnæði að Lambhagavegi 7.

Ritstjórn
Róbert Wessman.
Aðsend mynd

Líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech stefnir á að setja sína fyrstu vöru, AVT02, sem er hliðstæða líftæknilyfsins Humira, á markað á næsta ári. Til að styðja við framleiðsluna, sem mun fara fram í hátæknisetri fyrirtækisins í Vatnsmýri, tekur fyrirtækið í notkun nýtt húsnæði að Lambhagavegi 7, í Reykjavík. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Alvotech hefur gert langtíma leigusamning um afnot húsnæðisins, sem er 4.100 fermetrar og á þremur hæðum. Byggingin mun hýsa lager og rannsóknarstofur fyrir hráefni til lyfjagerðar, ásamt skrifstofum, en gert er ráð fyrir að um 40 manns starfi í húsinu að jafnaði,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að nýlega hafi náðst mikilvægir áfangar í átt að skráningu lyfsins, en sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (CHMP), hafi mælt með samþykki stofnunarinnar á AVT02 fyrir markaði Evrópusambandsins. Þá hafi Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) nýlega staðfest að umsókn um markaðsleyfi fyrirtækisins á AVT02 sé fullbúin og stefni eftirlitið á að gera lokaúttekt á verksmiðjunni á næstu misserum.  

„Afhending vöruhússins að Lambhagavegi er mikilvægur áfangi núna þegar að framleiðsla Alvotech á hliðstæðulyfi Humira að hefjast,“ er haft eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni Alvotech, í tilkynningunni. „Alvotech hefur  gert sölu- og dreifingarsamninga fyrir alla helstu markaði heims og er skránings lyfsins á áætlun. Humira er söluhæsta lyf í heimi með yfir 20 milljarða dollara í ársveltu og mun Alvotech bjóða lyfið á hagstæðari verðum en frumlyfið og þar með bæta aðgengi fólks að þessu skilvirka lyfi.“

Stikkorð: Alvotech