Alvotech hefur höfðað dómsmál gegn AbbVie, framleiðanda gigtarlyfsins Humira, mest selda lyfs í heimi vegna meintra brota á einakleyfalöggjöfinni.

Alvotech vinnur að þróun líftæknihliðstæðuútgáfu af Humira sem fyrirtækið segir að muni spara bandarískum neytendum 8-10 milljarða dollara ári samkvæmt tilkynningu frá félaginu . Humira er í dag selt fyrir um 18 milljarða dollara á ári í Bandaríkjunum og 20 milljarða dollara á heimsvísu.

Alvotech hefur bundið vonir við að vera fyrstir á markað með líftæknihliðstæðuútgáfu af Humira í Bandaríkjunum sem myndi tryggja félaginu umtalsverðar tekjur. Félagið lauk nýverið 4,5 milljarða hlutafjáraukningu og stefnir á markað síðar á þessu ári.

Alvotech segir að AbbVie hafi með bellibrögðum tekist að fá framlengt einkaleyfi á framleiðslu lyfsins fram til ársins 2023 sem átti upphaflega að renna út árið 2016. Félagið reyni nú að halda í lyfið enn lengur. AbbVie hafi þegar selt lyfið fyrir 75 milljarða dollara og muni að líkindum gera það fyrir 40 milljarða dollara til viðbótar út árið 2022.

Alvotech dregur í efa tilkall AbbVie til yfir 60 einkaleyfa tengd lyfinu sem séu einna helst sett fram í þeim tilgangi að valda ruglingi og gera það erfiðara fyrir eftirlitsaðila að hleypa keppinautum inn á markaðinn með líftæknihliðstæðu útgáfu af Humira.

Bandaríska félagið vilji halda í einokunarstöðu sína með lyfið, sem það hafi nýtt til að hækka verð til bandarískra neytenda. Þá er bent á að stjórnendur AbbVie muni þurfa að svara fyrir þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings síðar í þessum mánuði vegna ásakana um að félagið hafi beitt sér til að kæfa samkeppni.

AbbVie þegar höfðað mál gegn Alvotech

AbbVie stefndi Alvotech nýlega vegna vinnu fyriverandi starfsmanna AbbVie fyrir Alvotech sem það sakar um að hafa stolið gögnum af AbbVie og komið til Alvotech.

Alvotech blés á þær ásakanir og sagði dómsmálin eingöngu höfðuð til að hægja á lyfjaþróun Alvotech. Enda væru þrú ár frá því að meint atvik hafi átt sér stað og starfsmaðurinn hafi látið af störfum hjá Alvotech á síðast ári. Málsóknin bæri þess öll merki að verið væri að reyna slá Alvotech út af laginu.