Alvotech hafnar eindregið ásökunum þess efnis að það hafi stolið trúnaðarupplýsingum frá bandaríska lyfjafyrirtækinu AbbVie, í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Greint var frá því í gær að AbbVie hafi stefnt Alvotech vegna málsins. Bakasagan er sú að fyrir tveimur árum réði Alvotech fyrrverandi stjórnanda hjá AbbVie, vísindamanninn Rongzan Ho, sem vann að þróun á lyfinu Humira. Er Ho sakaður um að hafa sent trúnaðarskjöl sem tengdust þróun Humira á eigið persónulega netfang á síðasta degi sínum hjá AbbVie. Lyfjafyrirtækið bandaríska vill meina að Alvotech hafi skipað honum að gera svo.

Ho þessi er í stefnunni sagður hafa nýtt skjölin til þess að þróa líftæknihliðstæðuútgáfu af Humira innan veggja Alvotech og þannig stytt sér leið, í stað þess að fjárfesta nauðsynlegum tíma og auðlindum í þróun samheitaútgáfu af Humira upp á eigin spýtur. Ásakar AbbVie einnig Alvotech um að reyna að koma meintri líftæknihliðstæðu af Humira inn á bandarískan markað. Sjálfur neitaði Ho ásökununum og kvaðst hafa eytt öllum gögnum sem tengdust AbbVie er hann lét af störfum þar.

Í svari Alvotech er bent á að meira en þrjú ár hafi liðið frá meintu atviki þar til að AbbVie lagði fram stefnuna. Jafnframt hafi verið beðið þar til eftir að fyrrnefndur Ho var hættur störfum hjá Alvotech, en hann lét af störfum hjá fyrirtækinu á síðasta ári. Einnig er bent á að AbbVie hafi ekki nefnt Ho sem sakborning í málinu.

Hægur framgangur málsins veki spurningar hjá Alvotech um hvatann á bak við stefnuna. Íslenska fyrirtækið telur að málið kunni að snúast um áform AbbVie um að hægja á nýjum keppinaut sem ætli að bjóða sjúklingum ódýrari valkosti en Humira lyf AbbVie.

„Alvotech hyggst halda áfram sinni vinnu að auka aðgengi að hágæða lyfjum á viðráðanlegu verði,“ segir í lok svarsins.

Ljóst er að mikið er undir enda hafa forsvarsmenn Alvotech áður bent á að Humira sé söluhæsta lyf í heimi. Það er langsöluhæsta vara AbbVie og það líftæknihliðstæðulyf sem Alvotech hefur bundið mestar vonir við.