Alvotech tapaði tæpum 40,9 milljónum Bandaríkjadala árið 2015, sem jafngildir um 4,85 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Alvotech, er systurfyrirtæki Alvogen, og sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á líftæknilyfjum.

EBITDA félagsins árið 2014 var neikvæð um 1,7 milljónir dala, árið 2015 var hún hins vegar neikvæð um tæplega 36 milljónir Bandaríkjadala. Heildareignir Alvotech námu rúmum 62,6 milljónum dala. Eigið fé var að upphæð 32,16 milljónir og eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var 51%. Eigið fé fyrirtækisins nam 58,6 milljónum dala í lok árs 2014, en undir lok síðasta ár var það 32,2 milljónir dollara.

Alvotech jók hlutdeild sína í dótturfyrirtækjum sínum. Fyrirtækið á nú 49% í Baliopharm GmbH í Þýskalandi og á nú 100% í Alvotech AG í Sviss. Í ársreikningi félagsins kemur einnig fram að fyrirtækið Hospira Biologics ltd. á Bahamas hafi keypt 15% í félaginu. Alvotech er þá í eigu þriggja fyrirtækja. Alvogen Aztiq á 60%, Alvogen Lux Holdings á 25% og Hospira 15%.