Alvotech stefnir að því að láta skrá hlutabréf félagsins á aðalmarkað íslensku kauphallarinnar að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Alvotech var skráð í kauphöll í júní með tvískráningu á Nasdaq kauphöllina í Bandaríkjunum og First North markaðinn á Íslandi í júní, sem alla jafna er ætlaður minni fyrirtækjum. Hlutabréfaverð Alvotech hefur verið nokkuð undir útboðsgengi félagsins frá skráningu. Bréf félagsins í Bandaríkjunum eru nú fjórðungi undir útboðsgenginu í 7,5 dollurum á hlut en útboðsgengið nam 10 dollurum á hlut. 

Í tilkynningun frá Alvotech kemur fram að félagið vilji með skráningu á aðalmarkað ná til breiðari hóps fjárfesta og eiga möguleika á að vera meðal skráðra fyrirtækja hér á landi sem komast inn í vísitölu markaðsríkja hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell. Viðskiptaráð hefur áætlað að um 50-55 milljarða innflæði inn á íslenska hlutabréfamarkaðinn með uppfærslu Íslands í flokk nýmarkaðsríkja hjá FTSE Russell sem á að hefjast í september líkt og Viðskiptablaðið greindi frá nýverið.

„Með skráningu á Aðalmarkaðinn ættu hlutabréf í félaginu að ná til breiðari hóps. Þá getur skráð fyrirtæki á Aðalmarkaðnum átt möguleika á að vera valið til þátttöku í innlendum og erlendum hlutabréfavísitölum. Í september næstkomandi munu fyrirtæki skráð á Aðalmarkaðinn, sem uppfylla kröfur um veltu og fleiri þætti, eiga möguleika á að vera skráð í nokkrar nýmarkaðsvísitölur FTSE Russell. Val á íslenskum hlutabréfum til þátttöku í FTSE vísitölunum er endurskoðað reglulega eða á sex mánaða fresti,“ segir í tilkynningu frá Alvotech.

„Við erum mjög spennt fyrir því að hefja umsóknarferlið til að færa viðskipti með hlutabréf í Alvotech yfir á Aðalmarkaðinn á Íslandi, eftir að við náðum þeim áfanga að vera fyrsta íslenska fyrirtækið sem skráð er samtímis í Bandaríkjunum og á Íslandi,“ er haft eftir Róberti Wessman, stofnanda og stjórnarformanni Alvotech í tilkynningunni.