Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, mun flytja þingsályktunartillögu um þjóðarmorð Tyrkja gegn Armenum, sem framið var á árunum 1915-1917. Þetta staðfestir Birgitta í viðtali við Viðskiptablaðið. Í þingsályktunartillögunni segir meðal annars:

„Það er gríðarlega mikilvægt að heimsbyggðin viðurkenni þau voðaverk sem framin voru á armensku þjóðinni sem þjóðarmorð. Þótt langt sé um liðið var þetta glæpur gegn mannkyni – gegn okkur öllum.

Þau voðaverk sem framin eru í öllu hernaðarbrölti heimsins, í nútíð og framtíð, byggjast nefnilega á því sem áður hefur verið gert. Það er löngu tímabært að Ísland viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915-17 og virði minningu fórnarlamba þessa glæps gegn mannkyni.”

Allt að 1,5 milljón Armenar voru myrtir í þjóðarmorðinu sem hefur hingað til verið viðurkennt af 29 þjóðum - þar á meðal Vatíkaninu, 44 fylkjum Bandaríkjanna, Rússlandi, Brasilíu, Frakklandi, Ítalíu og Kanada - og nú síðast Þýskalandi, sem viðurkenndi þjóðarmorðið opinberlega í dag.

Tyrkir beita þrýstingi

Tyrkir, sem hafa neitað því að þjóðarmorðið hafi yfir höfuð verið þjóðarmorð, skipuðu sendiherra sínum í Þýskalandi að snúa aftur til Tyrklands eftir að það var viðurkennt í morgun. Armenar fögnuðu þó viðurkenningu Þjóðverja, eins og sjá má í tísti frá fréttamiðlinum Russia Today hér að neðan.

Þingsályktunartillaga þess efnis hefur áður verið borin fyrir íslenska þingið en var stuttlifað síðast þegar það var borið fram. Af flutningsmönnum ályktunarinnar nýsömdu er ljóst að nokkuð þverpólitísk sátt ríkir um ályktunina en það eru þingmenn frá hverjum og einum þingflokki sem koma að flutningi hennar.

Meðal flutningsmanna frumvarpsins eru þau Elín Hirst frá Sjálfstæðisflokki, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir frá Samfylkingu, Óttarr Proppé frá Bjartri framtíð, Líneik Anna Sævarsdóttir frá Framsóknarflokki og Steinunn Þóra Árnadóttir frá Vinstri grænum. Eins og áður segir er Birgitta Jónsdóttir flutningsmaður tillögunnar þingmaður Pírata.

Ekki í fyrsta skiptið

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingsályktunartillaga af þessu tagi hefur verið flutt fyrir Alþingi. Fyrst var ályktun þess efnis flutt fyrir þingi árið 2012 af þingmönnum Hreyfingarinnar - sem þá voru þau Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari, ásamt þeim Lilju Mósesdóttur og Guðmundi Steingrímssyni. Sama ályktun var þá flutt tvisvar á því kjörtímabili af Margréti.

Þá voru þau Halldóra Mo­gensen, Sigríður Ingi­björg Inga­dótt­ir, Pét­ur H. Blön­dal, Ótt­arr Proppé, Stein­unn Þóra Árna­dótt­ir og Líneik Anna Sævars­dótt­ir meðal flutningsmanna samskonar ályktunar á þingi 2014-2015. Hvorug þessara þingsályktunartillaga hefur náð brautargengi eða verið samþykkt.

Tyrkneski sendiherra Íslands, Esat Şafak Göktürk - sem reyndar er staðsettur í Osló - beitti íslenska þingmenn þá þrýstingi um að samþykkja ályktunina ekki. Sendiherrann fundaði með þingmönnum og gerði sitt besta við að berjast gegn því að ályktunin færi gegnum þingið eða að hún væri flutt fyrir því yfir höfuð.