Viðskiptaráð Íslands hefur skilað umsögn vegna þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Viðskiptaráð er harðort gagnvart þingsálytkunartillögunni en það segir hana vera ábyrgðarlausa og skaðlega. Ráðið segir einnig að í henni felist veruleg áhættutaka ríkissjóðs, afturfarir í skilvirkni skattkerfisins og að ófjármögnuð útgjaldaaukning ýti undir ofþenslu í íslensku hagkerfi.

Endurvekja á undirmálslán

Viðskiptaráð segir að ætla megi að flutningsmenn tilllögunnar hafi lítið lært á alþjóðlegu fjármálakreppunni, en lagt er til að endurverkja svokölluð undirmálslán (sub-prime mortgages). Slík lán hafi ýtt undir eignabólu á fasteignamarkaði og aukið við útlánahættu í aðdraganda kreppunnar. Viðskiptaráð segir að þriðja grein tillögunnar leggi þetta til, en hún segir:

„fólki sem kaupir íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn og tekjulágu fólki verði veitt viðbótarlán með ríkisstuðningi til að fjármagna kaupin.“

Viðskiptaráð gagnrýnir einnig að hér sé verið að leggja til að ríkissjóður styðji við fjármögnunina, að öllum líkindum með veitingu ríkisábyrgðar. Viðskiptaráð minnir á að rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð hafi áætlað að heildarkostnaður skattgreiðenda vegna afskipta hins opinbera á fasteignalánum í aðdraganda hrunsins hafi numið 270 milljörðum króna.

Dregið úr skilvirkni skattkerfisins

Viðskiptaráð gagnrýnir einnig að verið sé að flækja skattkerfið með nýrri undanþágu frá fjármagnstekjuskatti fyrir einstaklinga sem leigja út eina íbúð. Undanþágan er háð þeim skilyrðum að „húsaleiga verði ekki hærri en meðalleiguverð á því svæði sem íbúðin er. […] Auk þess verði skilyrði að um sé að ræða almenna húsaleigu til a.m.k. tólf mánaða.“

Ráðið bendir á að til að skattstofnar ríkisins haldist óbreyttir þá þurfi að hækka gjaldhlutföll. Auk þess munu breytingar krefjast aukins umsýslukostnaðar og eftirlitskostnaðar.

Sex atriði sem grafa undan afkomu ríkissjóðs

Viðskiptaráð bendir á að í tillögunni eru sex atriði sem grafa undan afkomu ríkissjóðs, annað hvort með aukningu opinberra útgjalda eða lækkun skatta en engar upplýsingar eru hvernig eigi að fjármagna kostnað og tekjutap ríkisins.

  • Húsaleigubætur hækki til jafns við vaxtabætur (1. gr.)
  • Undanþága verði veitt frá fjármagnstekjuskatti og bótaskerðingum vegna tekjum af útleigu einnar íbúðar (2. gr.)
  • Tekjulágum og fyrstu kaupendum verði veitt viðbótarlán með ríkisstuðningi (3. gr.)
  • Skattaafsláttur verði veittur til kaupa á fyrstu íbúð eða búseturétti (4. gr.)
  • Niðugreiðsla vaxtakostnaðar sveitarfélaga verði útvíkkuð (8. gr.)
  • Stjórnvöld veiti stofnstyrki fyrir allt að 20% af byggingarkostnaði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (9. gr.)