Amagerbanken, einn af elstu bönkum Danmerkur, er fallinn. Bankinn var yfirtekinn í dag af hinu opinbera í gegnum stofnunina Finansiel Stabilitet, sem hefur eftirlit með fjármálakerfi landsins.

Amagerbanken hefur staðið höllum fæti allt frá hamförunum á Alþjóðamörkuðum haustið 2008. Danski auðkýfingurinn Karsten Ree hefur ítrekað lagt bankanum til nýtt hlutafé síðan, í þeirri von að bankinn næði aftur vopnum sínum. Allt kom þó fyrir ekki.

Miklir afskriftir á síðasta ársfjórðungi 2010 veittu bankanum náðarhöggið en bankinn var með neikvætt eigið fé upp á 600 milljónir danskra, um 12,6 milljarða króna, í lok ársins.

Banki á nýrri kennitölu, í húsakynnum Amagerbanken, mun opna á morgun en óljóst er þó, miðað við fréttir danskra fjölmiðla, hvort innstæðum verður bjargað að fullu. Á vef Politiken segir að Amagerbanken hafi ítrekað fengið frest til þess að koma málum sínum í lag en staða bankans hafi að lokum verið metið svo slæm að ekki hafi verið verjandi annað en að setja hann í slitameðferð.

Dönsk stjórnvöld ríkistryggðu allar innstæður í dönskum bönkum haustið 2008 í tvö ár. Sú trygging er ekki lengur í gildi.