Tækni- og verslunarrisinn Amazon afhjúpaði í gær hönnun nýrra höfuðstöðva sinna í Arlingtonborg í Virginíufylki.

Byggingin er nokkuð tilkomumikil, en á sama tíma óhefðbundin. Hún verður 110 metrar á hæð, og líkist einna helst – að sögn fjölda fjölmiðla vestanhafs – kúka-tákninu (e. poop emoji) sem finna má í spjalli Facebook og víðar.

Glerturninn myndar nokkurskonar snúning, sem einnig mætti líkja við ís úr ísvél, en í brattanum sem snýst umhverfis hann verða tré og annar gróður, og hægt verður að ganga upp hann.

Amazon segir að almenningi muni standa til boða skoðunarferðir um bygginguna um helgar. Turninn verður þó ekki eina bygging Arlington-höfuðstöðvanna, heldur verða þar einnig þrjár 22-hæða byggingar.

Á milli þeirra verður svo stórt torg með grænum svæðum sem opið verður almenningi, með rými fyrir verslanir, veitingahús og matarvagna, auk 950 hjólastæða.