Amazon hefur hafið útkeyrslu matar til viðskiptavina Amazon Prime þjónustu sinnar í London.

Þjónustan sem kölluð er Amazon Restaurants, er aðgengileg í gegnum Amazon Prime Now appið í ákveðnum póstnúmerum borgarinnar, og lofar þjónustan að afhenda matinn innan klukkutíma.

Mikil samkeppni

Kemur þjónustan til viðbótar við aðrar svipaðar í borginni eins og Deliveroo og hina nýtilkomnu þjónustu Uber sem ber heitið UberEats, en gríðarleg samkeppni er um matarheimsendingar í borginni.

Amazon segir engin leynd þjónustugjöld fyrir notendur sína, heldur sé þjónustan ókeypis fyrir alla notendur Prime þjónustu fyrirtækisins, ef pantað er fyrir að lágmarki 15 pund, eða um 2.300 krónur.

Áskrift að Prime þjónustunni kostar frá 79 pundum á ári, eða meira en 12 þúsund krónur, en henni fylgir einnig aðgangur að streymisþjónustu á þáttum og bíómyndum auk ótakmarkaðrar afhendingar á ákveðnum vörum innan sólarhrings eða svo.

Sendlar óánægðir

Til viðbótar við mikla samkeppni um að þjónusta viðskiptavini þá bætist við samkeppni um sendla, en mikil óánægja hefur verið meðal starfsmanna bæði Deliveroo og UberEats, sem eru álitnir sjálfstæðis verktakar hjá fyrirtækjunum, um greiðslur fyrir að veita þjónustuna.

Hafa sumir þeirra beitt verkfallsaðgerðum og gert tilraun til að stofna verkalýðsfélög. Líklegt er að Amazon muni þó nota dreifikerfið sem þeir hafa fyrir, sem þjónusta á afhendingu vara á skömmum tíma í borginni.

Heimsendingar í fyrsta sinn

„London býður upp á einn besta mat í heimi, svo við erum ánægð með að nú geta notendur Amazon Prime þjónustunnar notið matar frá uppáhaldsveitingastöðum sínum í gegnum hraðvirka Prime Now þjónustu Amazon,“ sagði Al Wilkinson, framkvæmdastjóri Amazon Restaurants í Bretlandi í yfirlýsingu.

„Byggt á okkar eigin rannsóknum á því hvað er mikilvægt fyrir viðskiptavini matarheimsendinga, höfum við valið bestu veitingastaðina í London. Við erum spennt fyrir því að geta hjálpað mörgum litlum fyrirtækjum að bjóða upp á heimsendingar í fyrsta sinn.“