Bandaríska netverslunarfyrirtækið Amazon hefur sagt upp samningi við öryggisgæslufyrirtæki í Þýskalandi vegna frétta þar í landi af hótunum öryggisvarða í garð starfsmanna Amazon og meintum tengslum fyrirtækisins við nýnasista í Þýskalandi. Fyrirtækið, Hensel European Security Services, er betur þekkt sem Hess og hefur nafnið verið tengt nafni eins alræmdasta nasista þriðja ríkisins Rudolf Hess. Þá birtust myndir af starfsmönnum fyrirtækisins í fatnaði frá fataframleiðandanum Thor Steinar, en sá fatnaður er í miklu uppáhaldi hjá þýskum nýnasistum.

Hess hefur sinnt öryggisgæslu við pökkunarstöðvar Amazon í Þýskalandi þar sem starfsmenn eru einkum frá Spáni og Portúgal. Sögðu starfsmennirnir að öryggisverðirnir væru hinir harðhentustu, leituðu ítrekað á fólki og færu hart fram í eftirliti.

Í yfirlýsingu frá Amazon segir að fyrirtækið umberi ekki mismunun eða hótanir og vænti þess sama frá þeim fyrirtækjum sem það ætti í viðskiptum við. Þess vegna hefði samningnum við Hess verið sagt upp umsvifalaust.