Vefsmásölurisinn bandaríski hagnaðist um 482 milljónir Bandaríkjadala, sem er 125% aukning frá árinu á undan. Hagnaðurinn var langt undir spám greiningaraðila. Eftir að afkoma ársins var birt féll gengi hlutabréfa Amazon um 11% á formarkaði Nasdaq.

Þrátt fyrir þessi vonbrigði greiningaraðila er ljóst að Amazon átti gott ár. Til að mynda jukust skráðir notendur í Amazon Prime um 35% á árinu, en Amazon Prime er sérþjónusta fyrir tíða notendur Amazon.

Prime virkar þannig að notandi borgar 99 Bandaríkjadali fyrir ársáskrift, og fær þá allar heimsendingar á tveimur dögum, auk afsláttartilboða og aðgangs að tónlistarveitum o.fl. Að meðaltali eyðir hver notandi Prime um 1.100 dölum á Amazon á ári, miðað við að meðalnotandinn eyðir 600 dölum á ári.

Markmið Jeff Bezos er, sem fyrr, að endurfjárfesta græddu fé í því skyni að viðhalda langtímavexti fyrirtækisins. Hans helsta verkefni er að halda jafnvægi milli þessa markmiðs og svo hagnaðarvæntingum fjárfesta á Wall Street, sem þyrstir flesta sífellt í stærri hagnaðartölur.

Meðal annars hefur framkvæmdastjórinn fjárfest í nýrri heimsendingartækni og snjallgræjum fyrir heimilið - tækjum á borð við Amazon Echo - sem og í vefvörum og þjónustu á netinu - en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gærkvöldi bárust fréttir þess efnis að Amazon ætlaði sér að fara í samkeppni við Spotify og Apple Music á tónstreymiþjónustumarkaðnum.