Netvöruverslunin Amazon hefur verið að færa sig hægt og rólega inn á exótískari markaði í sumar, nánar tiltekið inn á hjálpartækjamarkað ástarlífsins, segir í Financial Times. Allt fer þetta mjög hljóðlega fram en unaðsvörurnar eru flokkaðar sem heilsu- og persónuvörur á vefsíðu Amazon. Þar eru í boði fjölbreytt flóra hjálpartækja eða yfir 40.000 tegundir af tækjum og tólum. Til dæmis er hægt að kaupa yfir 9.000 mismunandi gerðir af titrurum og 5.500 kynörvandi vörur sem ættu að auka ánægju viðskiptavinanna.

Hjálpartækjavörurnar er sífellt vaxandi grein innan Amazon netverslunarinnar, en sala þessara fullorðinsleikfanga er um fjórðungur af heildarsölu fyrirtækisins. Talsmaður netverslunarinnar segir að þetta sé ekkert nýtt, vörurnar hafi verið til sölu á vefnum undanfarin tvö ár. Amazon hafi ætíð lagt sig fram um að bjóða viðskiptavinum sínum allt milli himins og jarðar.

Í sumar hefur orðið mikil aukning á mun harðari kynlífsvörum hjá Amazon, svo sem eins og risatitrurum og fleiri tækjum í svipuðum dúr. Margar þessara vara koma frá einum stærsta dreifingaraðila kynlífsvara í Bandaríkjunum, Seakap Enterprises. Hjá Amazon er að finna um 15.000 vörur frá Seakap.

Amazon hefur ekkert gert til að auglýsa hjálpartækin sem þeir selja. Það var ekki fyrr en nýlega að greinar birtust um þennan vel falda gróðapytt fyrirtækisins í bandarískum blöðum.