Forsvarsmenn netverslunarrisans Amazon eru sagðir hugleiða að bjóða upp á bókanir á hótelgistingu í vinsælum stórborgum. Verður þar um að ræða hótel sem eingöngu eru í einkaeigu og eru ekki hluti af alþjóðlegum keðjum. Túristi greinir frá þessu.

Þar kemur fram að talið sé að Amazon muni hleypa þessari nýju þjónustu af stokkunum í byrjun næsta árs. Útsendarar Amazon hafi nú þegar hafist handa við að bjóða hótelum þjónustu sína og er talið að margir hóteleigendur fagni samkeppninni við Booking.com og Expedia, en fyrirtækin hafa náð afar sterkri markaðsstöðu víðs vegar um heiminn.