Amazon hefur hafið samstarf við bandaríska bankann Wells Fargo, til að bjóða fram lægri vexti til viðskiptavina stúdentaþjónustu sinnar.

Hjálpar Amazon að fá námsmenn í áskrift

Fyrir árlegt gjald, geta viðskiptavinir „Prime Student“, fengið afslætti, ókeypis afhendingu á sendingum og aðgang að myndbandaþjónustu síðunnar.

Wells Fargo er einn stærsti lánveitandi stúdentalána í Bandaríkjunum. Samstarfssamningurinn ætti að geta gert bankanum kleyft að koma þjónustu á framfæri og Amazon til að ná til sín nemendum í þjónustu sína.

Fá Prime Student áskrifendur 0,5% afslátt af námslánum Wells Fargo. Rukkar Amazon árlegt gjald sem nemur 49 Bandaríkjadölum, eða um 6.000 krónum fyrir Prime Student þjónustuna, sem er um helmingurinn af venjulegu gjaldi fyrir Prime þjónustu Amazon.

Skulda meira en 1.000 milljarða dala í námslán

Vextir af lánum Wells Fargo geta verið allt frá 3,39% til 9.03%, fyrir lán með breytilegum vöxtum og frá 5,94% til 10,93% fyrir lán með föstum vöxtum.

Er námslánamarkaðurinn stór iðnaður í Bandaríkjunum og eru Bandaríkjamenn taldir skulda meira en 1.000 milljarða Bandaríkjadala í skuldir tengdum námi, en staða námsmanna gagnvart skuldum sínum hefur verið meginþema í kosningabaráttu bæði Hillary Clinton og Bernie Sanders fyrir útnefningu sem forsetaefni Demókrata.