Amazon hefur náð samkomulagi um kaup á fyrirtækinu iRobot, sem er þekktast fyrir Roomba ryksuguvélmennin. Kaupverðið nemur 1,7 milljörðum dala eða sem nemur ríflega 230 milljörðum króna.

Kaupverðið miðar við 61 dal á hlut, sem er 22% yfir lokagengi hlutabréfa iRobot í gær en gengi félagsins stóð 50 dölum við lokun markaða. Hlutabréf iRobot hafa hækkað um 19% í dag.

Roomba er meðal mest seldu ryksuguvélmennunum í vefverslun Amazon. Roomba er hönnuð til að forðast veggi, snúrur og gæludýraúrgang.

Það hefur þó aðeins hægst á sölu iRobot en tekjur fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi drógust saman um 30% frá sama tímabili í fyrra og námu 255 milljónum dala eða um 35 milljörðum króna. Þá var 63 milljóna dala rekstrartap hjá iRobot á fjórðungnum en til samanburðar var 3 milljóna dala tap af rekstrinum á öðrum fjórðungi 2021.

Í umfjöllun Financial Times segir að tölurnar gefi til kynna að iRobot hafi átt í erfiðleikum með röskun á aðfangakeðjum og skort á örgjörvum að undanförnu. Fyrirtækið hyggst ráðast í hagræðingu á rekstrinum, m.a. með að segja upp 10% af starfsmönnum.