Amazon hefur samþykkt að kaupa MGM kvikmyndaverið fyrir 8,45 milljarða Bandaríkjadollara. Þetta er næst stærsta yfirtaka Amazon á eftir Whole Foods sem að það keypi fyrir 13,7 milljarða Bandaríkjadollara árið 2017. CNBC greinir frá.

Með kaupunum tryggir Amazon sér réttinn að höfundarvörðu efni MGM en kvikmyndaverið á meðal annars réttinn að James Bond, Rocky, Bleika pardusnum og Handmaid's tale. Þá telur safn kvikmyndaversins um 4.000 kvikmyndir og 17.000 sjónvarpsþætti. Þá er greinilegt að Amazon ætlar ekki að láta í minni pokann fyrir streymisveitum Disney og Netflix.

Þetta er ekki eina stóra yfirtakan í skemmtanabransanum í þessum mánuði en um miðjan mánuð var greint frá því að WarnerMedia, sem er í eigu AT&T, og Discovery myndu sameinast . Hluthafar AT&T fengu 71% hlut í hina nýja fyrirtæki en hluthafar Discovery 29%. WarnerMedia á meðal annars CNN og HBO sjónvarpsstöðvarnar auk Warner Bros. myndveranna. Discovery er hvað frægast fyrir framleiðslu á fræðsluefni.

Kapphlaupið um markaðshlutdeild á streymisveitumarkaðinum virðist því vera að ná hápunkti sínum núna og ætla hvorki Amazon né WarnerMedia og Discovery að gefa neitt eftir. Þess má geta að Ólafur Jóhann Ólafsson var aðstoðarforstjóri WarnerMedia, sem þá hét Time Warner, áður en að AT&T keypti fyrirtækið árið 2018.