Amazon mun hætta að taka við greiðslum frá Visa kreditkortum sem gefin eru út í Bretlandi frá og með byrjun næsta árs. Í tilkynningu sem viðskiptavinum barst í vikunni sagði netrisinn að ástæðan fyrir þessari breytingu væri vegna hárra millifærslugjalda Visa, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Breytingin nær ekki til debetkorta Visa eða kreditkortum sem gefin eru út annars staðar en í Bretland. Jafnframt nær breytingin ekki til kreditkorta frá samkeppnisaðilum Visa, þar á meðal Mastercard.

Amazon reynir nú að hvetja breska viðskiptavini sína með 20 punda afslætti af næstu pöntun til að skipta um greiðslumáta. Netrisinn segir að kostnaður við kreditkortafærslurnar sé hindrun við að útvega viðskiptavinum sínum bestu mögulegu kjörin.

Visa segist í yfirlýsingu vera „afar vonsvikið að Amazon skuli hóta að takmarka valkosti neytenda“. Greiðslukortafyrirtækið kveðst vera að vinna að lausn svo að korthafar Visa geti áfram notað kreditkortin án takmarkana Amazon í janúar 2022.

Fyrr í ár tilkynnti Amazon um 0,5% aukagjald á pantanir sem greiddar eru með Visa kreditkortum í Ástralíu og Singapúr.