Eins og Viðskiptablaðið greindi frá áður setti vefverslunarrisinn Amazon sína fyrstu raunheimabókabúð á laggirnar fyrir stuttu síðan. Nú hefur framkvæmdastjóri fyrirtækisins General Growth Properties , sem sérhæfir sig í rekstri verslunarmiðstöðva, lýst því yfir að Amazon ætli sér að stofna til margra fleiri raunheimaverslana.

Sandeep Mathrani, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að talan flökti einhvers staðar á milli 300 - 400 bókabúða.  Ef rétt reynist er ljóst að Amazon ætlar í harða samkeppni við Barnes & Noble Inc., sem rekur 640 bókabúðir í raunheimum víðsvegar um Bandaríkin, auk fyrirtækisins Book-A-Million sem býr yfir 255 búðum.

Ef þessar fréttir, sem koma frá framkvæmdastjóra annars fyrirtækis - talsmenn Amazon neituðu að tjá sig um málið - reynast sannar, þá er ljóst að uppbyggingin verður yfir næstu ár. Það er mikil vinna að koma á laggirnar slíkum fjölda verslana, enda þarf að finna húsnæði fyrir hverja og eina þeirra og ráða aukalegt starfsfólk til vinnu til að sjá um búðirnar.