Amazon hyggst færa út kvíarnar og opna hárgreiðslustofu undir nafninu Amazon Salon eftir nokkrar vikur. Hárgreiðslustofan verður staðsett á Brushfield stræti í Spitalfields hverfinu í London.

Amazon mun nýta tækni á borð við viðbættan veruleika (e. augmented reality) til að aðstoða viðskiptavini við val á hárgreiðslum. Einnig verður notuð svokölluð „bentu-og-lærðu“ (e. point-and-learn) tækni þar sem gestir geta einfaldlega bent á vörur sem þeir hafa áhuga á og viðeigandi upplýsingar um hana, líkt og myndbönd eða annað efni frá framleiðandanum, birtast á skjáum.

Hárgreiðslustofan Neville Hair & Beauty mun sjá um klippingar og aðra snyrtiþjónustu fyrir Amazon. Ekki var tekið fram upplýsingar um verðlagningu á stofunni í tilkynningu netrisans.

Amazon segir að markmið verkefnisins sé að styðja við fegrunargeirann og nýja tækni sem bjóði upp á öðruvísi neytendaupplifun. Fyrirtækið er enn ekki með nein áform um að fjölga hárgreiðslustofum, að því er kemur fram í frétt Skynews .

„Við viljum að þessi einstaki vettvangur komi okkur einu skrefi nær viðskiptavinum og verði staður þar sem við getum unnið saman með iðnaðinum og prófað nýja tækni,“ segir John Boumphrey, framkvæmdastjóri Amazon í Bretlandi.

Amazon Salon
Amazon Salon
© Aðsend mynd (AÐSEND)