Amazon netverslunin hyggst ráða um 100 þúsund viðbótarstarfsmenn í Bandaríkjunum samhliða því að vöxtur í heimsendingum hefur sprungið út samhliða útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19 frá Wuhan borg í Kína.

Á sama tíma hefur félagið ákveðið að hækka laun starfsmanna í dreifingarmiðstöðvum sínum, útkeyrslu, verslunum og sendingum í Bandaríkjunum og Kanada um 2 Bandaríkjadali á tímann út apríl mánuð, eða sem nemur um 281 íslenskri krónu þegar þetta er skrifað.

Í Bretlandi hækka launin einnig, eða um 2 bresk pund á tímann, og um 2 evrur á tímann í mörgum ESB ríkjum samkvæmt ákvörðun fyrirtækisins. Fyrir hækkunina námu byrjunarlaunin í dreifingarmiðstöðum fyrirtækisins í Bandaríkjunum 15 dölum á tímann, eða sem samsvarar nú um 2.100 krónum.

Á þennan hátt vonast fyrirtækið til að geta annað eftirspurninni eftir gríðarlegri aukningu í eftirspurn eftir matvöru og ýmsum nauðsynlegum vörum fyrir heimilið vegna bæði aukinnar heimasetu, samkomubönn og jafnvel í sumum ríkjum útivistarbanna vegna útbreiðslu veirunnar.

Um áramótin störfuðu um 800 þúsund manns hjá fyrirtækinu svo aukningin nú er um 12,5%. Á sama tíma hafa mörg fyrirtæki eins og Apple, Nike og Lululemon Athletica lokað verslunum sínum vegna heimsfaraldursins.

Jafnframt hefur fyrirtækið boðið hlutastarfsmönnum í dreifingarmiðstöðum félagsins veikindarétt, og sett upp 25 milljóna dala sjóð til að aðstoða bílstjóra og aðra starfsmenn sem verða fyrir veikindum.

Aukning var einnig í heimsendingum, til að mynda frá veitingahúsum, á fyrstu stigum útbreiðslu faraldursins í Kína að því er WSJ segir frá, en í heildina var samdráttur hjá veitingahúsum vegna lokana þegar faraldurinn þróaðist lengra.