Vefverslunin Amazon hefur kynnt til leiks risaútsölu sem ber nafnið „Prime day“ og fer fram þann 15. júlí. Felst hún í frábærum tilboðum fyrir meðlimi „Amazon Prime“, en þeir borga ákveðna upphæð fyrir hin ýmsu fríðindi. Þetta er einn stærsti viðburðurinn í sögu Amazon og er þar verið að fagna 20 ára afmæli fyrirtækisins.

Deginum verður fagnað víða og er talið að hann muni skila meiri sölu en hinn frægi svarti föstudagur í Bandaríkjunum, sem kemur á eftir Þakkagjörðarhátíðinni. Þann dag fer allt á aðra hliðina í Bandaríkjunum þar sem tugir milljóna manns berjast við að gera góð kaup á útsölum.

Það verður þó að teljast afar broslegt hvernig Amazon ákvað að kynna Prime-daginn til leiks. Það fyrsta sem maður sér á vefsíðu breska Amazon er lógóið sem notað er til að kynna þennan stóra viðburð. Það lítur alveg eins út og Icesave lógóið!

Icesave málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þegar innistæður breskra og hollenskra viðskiptavina fuðruðu upp eftir fjármálahrunið 2008. Viðskiptavinir Icesave, sem var vörumerki innlánsreikninga á netinu sem Landsbanki Íslands bauð upp á, voru um 350 þúsund talsins. Eftir fall Landsbankans borguðu bresk og hollensk yfirvöld innistæðueigendum upp að ákveðnum mörkum og reyndu síðan að fá íslenska ríkið til að borga.

Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn til Amazon í Bretlandi og spurði hvort að enginn þar hefði áttað sig á ótrúlegum líkindum vörumerkjanna. Jafnframt spurði Viðskiptablaðið hvort það væri ekki óæskilegt að tengja Prime-daginn við Icesave, sem hefur vægast sagt neikvæða ímynd í Bretlandi. Enn sem komið er hafa engin svör borist.