Aukin eftirspurn eftir heimsendri dagvöru, almennri netverslun, og skýjaþjónustu Amazon eru meðal áhrifaþátta í stóraukinni sölu Amazon á fyrsta ársfjórðungi, sem jókst um 26% milli ára og nam rúmum 75 milljörðum Bandaríkjadala – ígildi um 11 þúsund milljarða króna. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri félagsins .

Kórónufaraldurinn hefur þó ekki aðeins haft jákvæð áhrif á rekstur Amazon. Félagið áætlar að kostnaður við ráðstafanir á borð við hlífðarbúnað, þrif og aukið flækjustig vöruhúsa og aukins launakostnaðar til að mæta aukinni eftirspurn verði um 4 milljarðar dala á fyrri helmingi ársins.

Annar rekstrarkostnaður hækkaði einnig, samanlagt um tæp 30%, en vó þar þyngst kostnaðarverð seldra vara („cost of sales“), sem hækkaði um 30% og nam 44 milljörðum dala. Hagnaður dróst því saman um 29% milli ára og nam 2,5 milljörðum dala, ígildi um 365 milljarða króna.

Jeff Bezos forstjóri Amazon sagði aðstæðurnar sem upp eru komnar sýna fram á aðlögunarhæfni og seiglu félagsins, en á sama tíma sé þetta mesta þrekraun sem félagið hefur upplifað á sinni rúmu aldarfjórðungslöngu ævi.

Þá sagði hann hluthöfum að félagið – sem er þriðja verðmætasta skráða félag í heimi – hefði stóra hluti í hyggju.

Umfjöllun BBC .