Lækkandi velta í netverslun og hækkandi kostnaður skiluðu Amazon tapi á síðasta ársfjórðngi í fyrsta sinn síðan 2015. Hlutabréf félagsins hafa fallið um 9% í eftirmarkaðsviðskiptum.

Þetta kom fram í árshlutauppgjöri vefrisans í gær, sem sagði skýringuna þá að umsvifaaukningin vegna heimsfaraldursins væri tekin að fjara út. Tapið nam 3,8 milljörðum dala, ígildi rétt um 500 milljarða íslenskra króna.

Þá gaf tæknirisinn Apple út að framleiðsluröskun vegna sóttvarnaraðgerða í Kína gæti skert tekjur fjórðungsins um allt að 8 milljarða dala. Auk minni umsvifa í kjölfar rénunar faraldursins á vesturlöndum hefur stríðið í Úkraínu haft neikvæð áhrif á veltu og afkomu beggja félaga.

Þrátt fyrir að áðurnefndir þættir hafi skilað Amazon sínu fyrsta fjórðungslega tapi í sjö ár, og félagið spái aðeins um 3% tekjuvexti heilt yfir á komandi misserum, var áfram mikill tekjuvöxtur á öðrum sviðum á borð við auglýsingasölu og skýjaþjónustu.

Umfjöllun Financial Times .

Umfjöllun BBC .

Umfjöllun Wall Street Journal .