Amazon tilkynnti á ráðstefnu í Las Vegas í gær að aðeins væru nokkrir mánuðir í að félagið tæki dróna í gagnið til að afhenda pakka til viðskiptavina sinna. Financial Times greinir frá þessu en Jeff Wilke, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs, tilkynnti áforminn í fyrirlestri í gær.

Drónarnir sem félagið hyggst nota eru knúðir rafmagni, hafa nær 30 kílómetra flugdrægni og geta borið pakka upp að 2,5 kg. þyngd. Dónarnir voru sýndir á ráðstefnunni og eru þeir búnir sex þyrluspöðum og gervigreind sem ber kennsl á hindranir í flugi og á jörðu. Jeff Wilke segir að drónarnir sem félagið hyggist nota séu mun öruggari en almennt eigi við um slík tæki.

Amazon tilkynnti fyrst árið 2013 áform sín um að nota dróna við afhendingu pakka, en ekki hefur farið hátt um verkefnið síðan þá. Drónarnir eru sagðir liður í þeirri stefnu Amazon að taka í ríkara mæli að sér afhendingu pakka til viðskiptavina.