Vefrisinn Amazon seldi 5,5 milljónir vara í gær, á hinum svarta föstudegi (e. Black Friday). Salan fór fram úr þeirra björtustu vonum, að því er segir á fréttavef ITV . Aldrei hafa jafn margar vörur selst á einum degi hjá Amazon, en um 64 pantanir voru lagðar inn á sekúndu að meðaltali yfir daginn.

Í fyrra tók Amazon við 4 milljónum pantana, sem var líka met en hefur nú verið slegið. Mánudeginum eftir, sem á ensku kallast Cyber Monday og útleggst á íslensku sem net-mánudagur, var metið slegið þegar 4,1 milljón pantana voru afgreiddar.

Amazon vonast til þess að metið frá því í gær verði slegið á mánudaginn næstkomandi og ætlar að bjóða ný tilboð á tíu mínútna fresti.