Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis er í samstarfi við Amazon um að nýta gervigreind frá Amazon til að einfalda hið flókna og svifaseina afgreiðsluferli bandarískra tryggingafélaga. Bandaríkin eru stærsta markaðssvæði félagsins þar sem það selur sáraroð, framleitt úr þorski á Ísafirði.

Sjá einnig: Kerecis frestar skráningu á markað

Werner Vogel, aðstoðarforstjóri Amazon, heimsótti starfsstöðvar Kerecis á Ísafirði fyrr í vetur og þar var tekið upp kynningarmyndband um samstarf fyrirtækjanna.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Í dag er það svo að læknaritarar senda fax á framleiðanda vörunnar sem hefur svo samband við tryggingafélag sjúklingsins og spyr hvort það muni greiða fyrir vöruna," segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis.

„Þetta er allt mjög þungt í vöfum og tekur að jafnaði um tvær vikur. Við erum búin að rafvæða ferlið þannig að í staðinn fyrir handskrifaða beiðni á faxi sendir ritarinn beiðnina í gegnum rafræna gagnagátt. Þar nýtir gervigreind Amazon vélanám til að greina hvort sambærileg beiðni hafi borist áður. Markmiðið hjá okkur er geta svarað læknaritaranum um leið hvort viðkomandi sé tryggður svo að sjúklingurinn geti fengið meðhöndlun samdægurs. Svartíminn hjá okkur er kominn niður í tvo daga og markmiðið er að innan árs getum við svarað slíkum fyrirspurnum samstundis. Þannig viljum við bjóða bestu þjónustuna til viðbótar við bestu klínísku niðurstöðurnar," segir Guðmundur.

Nánar er fjallað um Kerecis í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .