Amazon er vinsælasta netverslunin á Íslandi og eru viðskipti við síðuna nær tvöfalt meiri en við næstvinsælustu netverslun landsins, AliExpress, á fyrsta ársfjórðungi 2016. Þetta sýna tölulegar upplýsingar frá Meniga sem ná til tuttugu þúsund Íslendinga. Um málið er fjallað í Fréttablaðinu í dag.

Af tölum Meniga má sjá að heildarvelta á netverslunarmarkaði fer vaxandi og mælist meðalupphæð sem keypt er fyrir hverju sinni nú um 5.600 krónur

Viðskipti við AliExpress hafa aukist mikið milli ára, eða um 30,7%. Á sama tíma hafa viðskipti við Amazon aðeins vaxið um 7,6%. Amazon er vinsælasta netverslunin í öllum aldurshópum en er þó með töluvert minni hlutdeild hjá yngsta aldurshópnum, 16-25 ára, eða 33%, samanborið við 43 prósent hlutdeild hjá 36-55 ára. Ali Express er næstvinsælasta netverslunin hjá öllum aldurshópum, með stærstu hlutdeild hjá 26-35 ára einstaklingum, eða 26 prósent. Heimkaup.is er svo þriðja vinsælasta netverslunin hjá öllum aldurshópum, nema þeim yngsta, 16-25 ára, þar sem Asos er með sextán prósenta hlutdeild.

Í frétt Fréttablaðsins kemur jafnframt fram að af tíu vinsælustu netverslunum landsins hefur Asos vaxið mest í vinsældum milli ára, eða um 42,5%. Vinsældir Forever 21 hafa hins vegar dalað verulega, og sala dregist saman um 30,5% milli ára.