Bandaríska skuldatryggingafélagið Ambac Financial Group lýsti sig í gær gjaldþrota en félagið hefur tapað gífurlegum fjárhæðum frá því að erfiðleikar á fjármálamörkuðum hófust í lok árs 2007.

Ambac var næst stærsta skuldatryggingafélag Bandaríkjanna en samkvæmt þeim gögnum sem félagið lagði fram fyrir gjaldþrotadómstól á Manhattan í gær nema skuldbindingar félagsins tæpum 1,7 milljarði Bandarikjadala.

Eins og gefur að skilja hrundu hlutabréf félagsins í verði á mörkuðum í gær en við lok viðskipta var hluturinn skráður á 20 cent en hafði í upphafi dags verið um 50 cent.

Reuters fréttastofan segir þannig frá að Ambac hafi í upphafi verið íhaldssamt skuldatryggingafélag en eftir að félagið fór að elta aukinn gróða með því að versla með skuldabréfavafninga sem tengdust húsnæðislánamarkaði vestanhafs hafi vandræðin byrjað. Þegar undirmálslánakrísan hófst haustið 2007 fór að fjara undan félaginu.

Viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar segir að 1,7 milljarður dala sé ekki há upphæð í samhengi þeirra gjaldþrota sem þegar hafa átt sér stað á Wall Street eða í bandarískum fjármálageira almennt. Samt sé um töluverða upphæð að ræða og ljóst að Ambac getur með engu móti staðið við skuldbindingar sínar.

Það sem hins vegar vekur athygli er að í dómsskjölum með gjaldþrotabeiðninni er að finna áætlun um mögulega fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Ekkert mun þó verða af endurskipulagningu nema kröfuhafar félagsins taki þátt í henni. Ef kröfuhöfum hins vegar snýst hugur verður hægt að kippa félaginu, er svo má að orði komast, út úr gjaldþrotameðferð.