Þorsteinn Örn Guðmundsson er framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík) sem er samstarfsvettvangur um markaðssetningu á Reykjavík sem alþjóðlegri ráðstefnu- og viðburðaborg. Nánar tiltekið einblínir Meet in Reykjavík á svokallaða MICE-ferðamenn, þar sem MICE stendur fyrir „Meetings, Incentives, Conferences and Events“ eða fundi, hvataferðir, ráðstefnur og viðburði.

Meet in Reykjavík var stofnað í upphafi ársins 2012 og þar vinna saman bæði einkaaðilar og opinberir aðilar. Meðal aðildarfélaga má nefna Icelandair Group, Hörpu, Landsbankann, Reykjavíkurborg, Íslandsstofu, ráðstefnuskrifstofur, ferðaskrifstofur og fjölbreytta þjónustuaðila. Stofnaðilarnir voru 15 talsins en aðildarfélagar Meet in Reykjavík eru 46 í dag.

Meet in Reykjavík starfrækir svokallaðan Ambassadoraklúbb sem hefur það hlutverk að draga fundi eða ráðstefnur til landsins. Ambassadorarnir koma meðal annars úr atvinnulífinu og akademíunni og eiga það sameiginlegt að vera vel tengdir erlendis inn í samtök, fyrirtæki eða samsteypur.

Næsti árlegi ambassadoraviðburður Meet in Reykjavík verður haldinn í Hörpu næstkomandi fimmtudag, þann 15. september, og Þorsteinn hvetur alla þá sem vilja kynna sér málið til að koma á viðburðinn.

„Það sem við erum aðallega að gera er að finna þessa einstaklinga og útskýra fyrir þeim alla aðstoðina sem við getum veitt þeim á borð við markaðsefni, stuðning og tengingu við aðildarfélög Meet in Reykjavík. Við erum líka að hvetja fólk sem veit ekki hvert það á að snúa sér í þessum efnum til að koma og vinna með okkur. Við látum það fá markaðsefnið, við hjálpum því að koma með rök til að sannfæra ráðstefnuhaldara, við erum með bakgrunn og stuðning til að láta hlutina gerast. Þetta getur hjálpað fólki í þeirra starfi og fræðasviði, það vekur aukinn áhuga á fræðasviðinu og býr til ákveðna persónulega upphefð,“ segir Þorsteinn. Þar að auki séu áhrifin á hagkerfið gríðarleg.

„Núna eru skráðir hjá okkur um 150 ambassadorar og samantekt á 50 þeirra sem hafa verið að vinna að ráðstefnuverkefnum leiddi í ljós að þeir tengdust verkefnum sem drógu til sín 30.000 gesti til Íslands og skiluðu um það bil 12 milljörðum í gjaldeyristekjur. 50 einstaklingar! Þarna eru ennþá meiri tækifæri til staðar og þarna horfum við til annarra borga eins og Glasgow.“

Þorsteinn segir gríðarlega mikilvægt fyrir Meet in Reykjavík að fá til liðs við sig öfluga ambassadora: „Fullt af lesendum Viðskiptablaðsins hafa jafnvel möguleika á að vera lykillinn að stórum viðburði sem verður bæði jákvæður fyrir tekjuöflun, gjaldeyrisöflun, hagkerfið sem og fræðasviðið og viðkomandi einstakling. Þetta er alveg gríðarlega mikilvæg leið til að fá ráðstefnur til Reykjavíkur og Íslands og þess vegna er þetta ákall hjá okkur að fá sem flesta til að átta sig á rökunum og stuðningnum sem þeir geta fengið. Ambassadoraklúbburinn er að mörgu leyti ónýtt auðlind og þess vegna erum við með þriðja árlega viðburðinn okkar.

Nánar er rætt við Þorstein í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .