Kvikmyndahúsakeðjan AMC er í viðræðum um að endurfjármagna lánin sín, en fyrirtækið skuldar rúmlega 5,5 milljarða Bandaríkjadali, sem jafngildir um 700 milljörðum króna. Þetta kemur fram í frétt hjá Wall Street Journal. Auk þess skuldar keðjan 376 milljónir Bandaríkjadala í leigugreiðslur, en fyrirtækið fékk greiðslufrest á afborgunum í gegnum faraldurinn.

Gengi hlutabréfa félagsins hefur sveiflast mikið, en þau urðu að svokölluðum „jarm bréfum" í byrjun árs 2021 þegar einstaklingsfjárfestar hjálpuðust að við að hífa gengi bréfa félagsins svo hátt að hlutabréfaeigendurnir áttu meira en 80% af fyrirtækinu á tímabili.

Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 41% á þessu ári, en hluti af skuldum félagsins bera 10% vexti og er AMC í viðræðum við nokkra aðila um að endurfjármagna lánin á lægri vöxtum og lengri lánstíma. Það hefur gengið illa hjá fyrirtækinu að fá viðskiptavini til að koma í bíó, enda hefur framboð af kvikmyndasýningum verið talsvert minna í faraldrinum samanborið við hefðbundin ár.

AMC hefur haldið sér á floti í gegnum faraldurinn með því að selja nýja hluti í fyrirtækinu, taka ný lán, og semja um greiðslufrest á leigugreiðslum.