Finnska sportvörusamsteypan Amer Sports hefur fest kaup á íslenska fyrirtækinu Nikita, sem hannar snjóbretta- og tískufatnað. Amer er skráð í kauphöllinni í Helsinki og veltir tæpum 2 milljörðum evra á ári.

Í tilkynningu um kaupin segir að Amer hyggst byggja upp nýtt svið með áherslu á bretta- og lífsstílssport. Kaupin á Nikita eru fyrsta skrefið í þá átt.

Þau Aðalheiður Birgisdóttir, Rúnar Ómarsson og Valdimar Hannesson stofnuðu Nikita árið 2000. Fatnaður fyrirtækisins er í dag seldur í 1500 búðum í 30 löndum.

„Okkur er það mikil ánægja að vinna með fyrirtæki eins og Amer Sports sem tryggir áframhaldandi þróun vörumerkisins. Það verður spennandi að sjá hvað við getum skapað og þróað í samstarfi við stórfyrirtæki eins og Amer Sports, sem er fullt af reynsluboltum á öllum sviðum vöruþróunar,“ segir Aðalheiður í tilkynningu.

„Við erum mjög spennt að vera orðin hluti af Amer Sports. Styrkleiki þeirra mun gefa okkur tækifæri til að fjölga vöruflokkum í samstarfi við topp-fólk í okkar geira, auka markaðssetningu og almennt gefa Nikita sem alþjóðlegu vörumerki frábært tækifæri til að komast upp á næsta stig,“ er haft eftur Rúnari Ómarssyni.

„Nýsköpunarsjóður fjárfesti í Nikita árið 2000 og hefur verið ánægjulegt fyrir sjóðinn að taka þátt í að byggja upp alþjóðlegt vörumerki frá Íslandi. Við höfum notið þess að vinna með sterkum frumkvöðlum sem hafa haft mikinn metnað og elju í að fylgja fyrirtækinu eftir. Kaup Amer á Nikita eru staðfesting á því að Nikita er sterkt alþjóðlegt vörumerki,“ segir Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.