Bandaríska flugfélagið American Airlines tilkynnti í dag að félagið hefði pantað 42 Boeing 787 Dreamliner flugvélar.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters en samkvæmt listaverði kosta vélarnar um 8 milljarða Bandaríkjadala.

Fyrsta vélin verður afhent American Airlines árið 2012 og sú síðasta árið 2018. Þá skrifaði flugfélagið einnig undir forkaupsrétt á 58 vélum til viðbótar sem afhendar verða á árunum 2015 – 2020 ef af kaupunum verður.

Pöntun American Airlines kemur sér vel fyrir Boeing en nokkuð hefur dregið úr pöntunum flugvéla almennt á þessu ári vegna erfiðleika í fjármálageiranum auk þess sem afhending 787 vélarinnar hefur dregist umfram það sem fyrst var tilkynnt.

Búist er við því að fyrstu 787 Dreamliner vélarnar verði afhendar fyrir áramót. Afhendingu þeirra hefur þegar verið frestað þrisvar en auk þess hafa tæknifræðingar Boeing verksmiðjunnar verið í verkfalli í rúmlega þrjár vikur og það gæti tafið afhendingu enn frekar.

Um 900 vélar hafa þegar verið pantaðar en um tveggja ára töf er á afhendingu.

787 Dreamliner á að eyða um 20% minna eldsneyti en aðrar vélar auk þess sem vélin á að vera sú langdregnasta í farþegaflugi. Vélin er helsta vara Boeing um þessar mundir og svar Boeing við risabreiðþotunni Airbus A380.

Icelandair á pantaðar fimm 787 Dreamliner vélar. Til stendur að afhenda tvær þeirra árið 2010, aðrar tvær árið 2012 og eina árið 2013.