Leiðir eru að skilja á milli bandarísku flugfélaganna American Airlines og JetBlue Airways. Félögin hafa unnið saman í um fjögur ár og hafa viðskiptavinir American Airlines getað safnað sér punktum hjá JetBlue og á hinn veginn líka. Þetta verður fyrir bí, að því er fram kemur í umfjöllun bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal .

Blaðið bendir á að staða flugfélaganna hafi breyst mikið í gegnum tíðina. Á sama tíma og JetBlue hafi aukið umsvif sín síðustu misserin sé tiltölulega stutt síðan fjárhagslegri endurskipulagningu American Airlines lauk. Flugfélagið hefur síðastliðin tvö ár verið undir verndarvæng greiðslustöðvunar.