Stjórnendur bandaríska flugrekstrarfélagsins AMR, móðurfélags flugfélagsins American Airlines, sviptu í dag hulunni af flugvélum í nýjum litum með nýju vörumerki. Tom Horton, forstjóri AMR, segir í samtali við bandaríska dagblaðið Wall Street Journal að unnið hafi verið að því síðastliðin tvö ár að klæða flugfélagið í nýjan búning þegar það komi undan greiðslustöðvun og fjárhagslegri endurskipulagningu. Flugfélagið virðist koma vel undan endurskipulagningunni. Tekjur félagsins námu 24,9 milljörðum dala á síðasta ári og hafa þær aldrei verið meiri. Þrátt fyrir það nam heildartapið 1,9 milljörðum dala.

Horton segir í samtali við blaðið umskiptin hæg og muni það taka um þrjú til fimm ár þar til flugrekstrarfélagið verði búið að skipta algjörlega um ham og innleiða nýja vörumerkið og liti félagsins við öll innritunarborð, á búningum starfsfólks og niður í smæstu einingar.

Félag í eigu FL Group

FL Group tilkynnti í desember árið 2006 að félagið hefði keypt 6% hlut í AMR fyrir jafnvirði 29 milljarða króna á gengi þess tíma. Gengi hlutabréfa AMR var þá á fleygiferð, stóð í kringum 27 til 30 dölum á hlut þegar FL Group flaggaði. Gengið hækkaði talsvert eftir það, náði hæst í 40 dali á hlut í byrjun árs 2007. Hannes Smárason, forstjóri FL Group á þeim tíma, sagði í tengslum við kaupin stjórnendur bera miklar væntingar til fjárfestingarinnar og fór hann ófáar ferðirnar til Bandaríkjanna í því skyni að kreista fé úr rekstrinum, svo sem með sölu rekstrareininga og vildarklúbbs.

Gengi hlutabréfa AMR hrundi nær látlaust eftir að FL Group tilkynnti um kaup í félaginu. Í desember árið 2007 þegar FL Group og hluthafar félagsins voru byrjaðir að róa lífróður var svo komið að verðmæti eignahlutarins hafði hrunið og var AMR-hluturinn seldur með 15 milljarða króna tapi. Skemmst er frá því að segja að Hannes fór frá sem forstjóri um svipað leyti. Í lok september ári síðar óskaði félagið eftir greiðslustöðvun við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Skoða enn sameiningu

Stjórnendur AMR óskuðu eftir greiðslustöðvun í samræmi við bandarísk gjaldþrotalög  í nóvember árið 2011. Kröfuhafar félagsins hafa skoðað það lengi að láta félagið renna saman við önnur félög í rekstrarvanda, svo sem US Airways, sem lýkur fjárhagslegri endurskipulagningu síðar á árinu. Gangi þær áætlanir eftir munu vélar US Airways verða málaðar í nýju litum American Airlines, að því er fram kemur í Wall Street Journal.