Stærsta flugfélag í heimi, American Airlines, virðist ætla að rukka allt að þrefalt meira fyrir flugfargjaldið til Íslands heldur en íslensku flugfélögin tvö sem munu keppa um flugleiðina milli Íslands og Dallas í Texas að því er Túristi greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hyggst American Airlines hefja flug 8. júní næstkomandi til Íslands frá Forth Worth flugvellinum í Dallas í Texas, en hvort tveggja Icelandair og Wow air hafa einnig ákveðið að fljúga til Dallas næsta sumar.

Að fljúga með fyrstu vél American Airlines til Íslands frá Dallas flugvelli, og aftur heim viku síðar, mun kosta rétt um 134 þúsund krónur, en farmiði fyrir sömu daga kostar um 62 þúsund krónur hjá Icelandair og 65 þúsund krónur hjá Wow air.

Þó mun fargjaldið hjá íslensku félögunum hækka ef farangurinn er innritaður með. Verðið er svo aðeins lægra hjá Wow air í júlí og ágúst, eða frá 50.497 krónum upp í 52.497 krónum, meðan verðið hjá American Airlines fer mest upp í tæpar 152 þúsund krónur í júlí.