Bandaríska kreditkortafyrirtækið American Express sætir nú ákæru frá bandarískum yfirvöldum fyrir brot á samkeppnislögum.

Þannig heldur bandaríska dómsmálaráðuneytið því fram að samningar félagsins við þjónustuaðila hindri aðra kreditkortaþjónustuaðila í að komast inn á markaðinn.

Rétt er þó að taka fram að Visa og Mastercard sættu einnig ákæru en náðu samkomulagi við yfirvöld og greiddu sektir. American Express hefur hins vegar viljað útkljá málið fyrir dómsstólum.

Helsti rökstuðningur yfirvalda er sá að kreditkortafyrirtækin hafi brotið samkeppnislög með því að koma í veg fyrir að söluaðilum, sem taka við fyrrnefndum kortum, gæfist kostur á að bjóða viðskiptavinum sínum ódýrari leiðir við kaup á vörum. Þetta snýr helst að hinum svokölluðu boðgreiðslum (þegar greiðslu er skipt á 3 mánuði) og í nokkrum tilvikum raðgreiðslum (þegar greiðslum er skipt á 12 mánuði eða lengur).

Þá vegur enn þyngra að kreditkorta fyrirtækin hafa gert samninga við söluaðila um að taka aðeins við sínum kortum. Þannig hafi viðskiptavinum ekki gefist kostur á að nota önnur kreditkort við greiðslu og greiða um leið lægri þjónustugjöld.

Visa og Mastercard hafa þegar heitið því að rifta öllum slíkum samningum auk þess sem engir sambærilegir samningar verði gerðir í framtíðinni. American Express segir hins vegar að söluaðilum sé frjáls að gera þá samninga sem þeir vilja.

Til gaman má geta þess að þjónustugjald sem söluaðilar greiða til kreditkortafyrirtækja nam á síðasta ári 35 milljörðum Bandaríkjadala þannig að segja má að kreditkortaiðnaðurinn velti töluverðum fjárhæðum.