American Airlines ætlar að segja upp rúmlega 30% af stjórnendum og skrifstofufólki sínu vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins. Flugfélagið ætlar að minnka við sig þar til eftirspurn hefur náð fyrra stigi. WSJ segir frá.

Þrátt fyrir merki um aukna eftirspurn vegna afléttinga stjórnvalda á ferða- og samkomubönnum telur félagið þó að flugrekstur þess verði ekki jafn umfangsmikill og fyrir ferðabönnin í nokkur ár. „Við verðum að undirbúa rekstur smærra flugfélags á næstu árum,“ skrifaði Elise Eberwein, varaforseti mannauðsmála hjá American, til starfsfólks í gær.

Sjá einnig: Fjárfestar spá falli American Airlines

Niðurskurðurinn mun ná til meira en fimm þúsund manns af rúmlega 17 þúsund starfsfólki í stjórnendastöðum fyrirtækisins. Ákvörðunin verður tilkynnt í júlí en uppsögðu starfsfólki verður haldið á launaskrá út september.

Fleiri risar í fluggeiranum hafa tilkynnt uppsagnir á síðustu misserum. United Airlines tilkynnti fyrr í mánuðinum um uppsagnir rúmlega 30% stjórnenda fyrirtækisins. Boeing sagði í gær að það hygðist skera niður 13 þúsund störf og EasyJet gaf út í gærkvöldi að allt að 4.500 manns verði sagt upp hjá félaginu vegna faraldursins.

Bandarísk flugfélög samþykktu að halda öllu starfsfólki í óbreyttu starfshlutfalli og á óbreyttum launum þar til í lok september. Þetta var forsenda stjórnvalda fyrir milljarða dollara ríkisstuðningi til fluggeirans.

American er þessa dagana að meta hvort segja þurfi upp flugmönnum, flugþjónum og öðru starfsfólki eftir að ákvæðinu lýkur.