Iceland Express flaug til um 20 áfangastaða í Evrópu í fyrra og hóf auk þess flug til Norður-Ameríku. Alls skilaði sú starfsemi um 8,8 milljörðum króna í rekstrartekjur. Mestar tekjur komu vegna flugleggja til Mið-Evrópu, eða rúmlega 2,8 milljarðar króna. Flug til Norðurlandanna skiluðu 1,6 milljörðum króna, flug til Suður-Evrópu um 1,3 milljörðum króna og Norður- Ameríkuflugið skilaði tæpum 800 milljónum króna í kassann. Aðrar og óskilgreindar tekjur vegna flugrekstrar voru síðan rúmlega 2,2 milljarðar króna, eða um fjórðungur af rekstrartekjum Iceland Express í fyrra. Í viðtali við Viðskiptablaðið í júlí síðastliðnum sagði Matthías Imsland, fyrrum forstjóri Iceland Express, að farþegar félagsins á ári séu nú um 500 þúsund og að um 70% þeirra séu erlendir. Áfangastaðir félagsins í Norður-Ameríku eru nú orðnir fjórir.