Bandaríska kreditkortafyrirtækið American Express (AMEX) hækkaði í dag vexti sína og rukkar allt að 46% vexti á greiðslukortalán sín í Bretlandi þrátt fyrir að stýrivextir þar í landi hafi aldrei verið jafn lágir og nú.

Þá hækkaði AMEX einnig ársgjald sitt á helstu kortunum og kostar nú hið margnotaða British Airways Premium Plus 150 Sterlingspund á ári en var áður 120 pund.

Í frétt breska blaðsins The Daily Telegraph kemur fram að með hækkunum sínum er American Express nú dýrasta kreditkortafyrirtækið í Bretlandi.

Rétt er að taka fram að bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum notar almenningur öllu jafna kreditkort líkt og við Íslendingar notum yfirdrátt. Í stað þess að fá yfirdrátt (sem þó viðgengst en í litlu magni) notar fólk kreditkort sín fyrir útgjöldum og semur svo við kortafyrirtækin um greiðslur.

Þessar greiðslur bera gjarnan háa vexti og þegar erlendar fréttir og bækur eru lesnar er oft talað um að fólk sé fast í kreditkortaskuldum. Eflaust kannast einhverjir Íslendingar við það að hafa yfirdráttarheimildir hangandi yfir sér í talsverðan tíma.

Að sögn Telegraph er erfitt fyrir fólk að skipta um kreditkortafyrirtæki því ef þú skulda einu fyrirtæki leyfa hin þér ekki að stofna til nýrra skulda. Þannig segir blaðið að fólk eigi erfitt með að færa sig í ódýrari félög en eins og fyrr segir er AMEX nú með dýrustu vextina og hæsta ársgjaldið.

Neytendasamtök og stjórnmálamenn í Bretlandi hafa þegar fordæmt AMEX fyrir hækkun vaxta og gjalda og sagði Martyn Saville, sérfræðingur hjá neytendasamtökunum Which? að hækkun AMEX væri „fáránleg.“

Telegraph tekur þó fram í frétt sinni að kreditkortafyrirtækjum er ekki skylt að miða vexti sína við stýrivexti.

Talsmaður AMEX segir hins vegar að gjaldið hafi verið óbreytt í mörg ár og því sé hækkun nú eðlileg. Aðspurð um hækkun vaxta neitaði hún að tjá sig.