Bandaríska kreditkorta- og ferðaþjónustufyrirtækið American Express (AMEX) tilkynnti í dag að félagið myndi segja upp allt að sjö þúsund manns og endurskoða fjárfestingastefnu sína og rekstrarkostnað.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Samkvæmt áætlun munu aðgerðirnar spara félaginu um 1,8 milljarða Bandaríkjadali á næsta ári en þar af reiknað með að um 700 milljónir dala sparist með fækkun starfsmanna, afnámi kaupauka og bónusa auk þess sem ekki verður ráðið í nýjar stöður.

Þá gerir félagið ráð fyrir að spara um 125 milljónir dala í ferðakostnað, ráðgjöf og aðra afþreyingu.

Að lokum er gert ráð fyrir sparnaði upp á einn milljarð dollara í minnkandi umsvifum fjárfestinga á borð við tækni- og viðskiptaþróun.

„Þessar aðgerðir munu auðvelda okkur að fara í gegnum erfiðasta tímabil sem við höfum séð á mörkuðum í áratugi,“ sagði Kenneth Chenault, stjórnarformaður AMEX í tilkynningu frá félaginu.

Gengi hlutabréfa í félaginu hefur hækkað um tæp 5% á Wall Street í dag en hefur engu að síður lækkað um rúm 50% það sem af er ári.