Samkomulag hefur náðst um að bandaríska líftækni- og lyfjaframleiðslufyrirtækið Amgen kaupi allt hlutafé móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar. Kaupverðið nemur 415 milljónum dala, jafnvirði 52 milljarða íslenskra króna. Kaupin voru samþykkt einróma í stjórn Amgen og verður kaupverðið greitt að fullu í reiðufé. Gert er ráð fyrir því að kaupin gangi í gegn fyrir áramót.

Í tilkynningu um kaupin var haft eftir Robert A. Bradway, forstjóra Amgen, að þekkingarbrunnur Íslenskrar erfðagreiningar muni auka getu Amgen til þess að greina sjúkdómsvalda og afmarka þá þætti sem orðið geta til lækninga. Þá spari kaupin Amgen um leið bæði tíma og fjármuni í ómarkvissum verkefnum.