„Fjármálaeftirlitið hefur verið upplýst um alla þætti málsins. Það er þess að taka ákvörðun um hvort tilefni sé til frekari aðgerða eða rannsóknar. En að hálfu Kauphallarinnar er málinu lokið," segir Páll Harðarson, staðgengill forstjóra Kauphallar Íslands, um þá ákvörðun Kauphallarinnar að áminna Nýherja hf.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá 30. september sl. hefur Kauphöll Íslands haft málefni er tengjast fjárhagslegri endurskipulagningu Nýherja til skoðunar frá því 28. september.

Í dag, eftir fyrrgreinda skoðun, ákvað Kauphöllin að áminna Nýherja opinberlega fyrir birta ekki verðmyndandi upplýsingar, m.a. um samkomulag við lánadrottna, umfang hlutafjáraukningar og áætlaða sölu á eignum, um leið og þær lágu fyrir.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni er tekið fram að kynning á endurskipulagningu fjárhags Nýherja sem barst Kauphöllinni, sem er frá 19. ágúst á þessu ári, hafi verið verðmótandi upplýsingar sem Nýherja hafi borið að birta í „allra síðasta lagi á sama tíma og valdir fjárfestar fengu aðgang að upplýsingunum, í samræmi við ákvæði [...] í reglunum".

Fjárhagslegri endurskipulagningu Nýherja hf. er lokið og hefur þegar verið tilkynnt um að 840 milljóna króna hlutfjáraukningu að markaðsvirði, endurskipulagningu á skuldum og sölu á eignum, þar á meðal húseignarinnar í Borgartúni sem hýsir starfsemi félagsins.