Úrskurðarnefnd lögmanna áminnti nýverið lögmann fyrir Facebook-skilaboð sem hann sendi eftir miðnætti. Með skilaboðunum braut lögmaðurinn gegn þremur greinum siðareglna lögmanna.

Atvik málsins eiga rætur að rekja í meðlagsdeilu foreldra sem höfðu slitið samvistum. Föðurnum bar að greiða móðurinni meðlag en af atvikalýsingu má ráða að móðirin hafi talið að hann greiddi það ekki alltaf tímanlega. Fór það svo að í mars á síðasta ári fékk hún sér lögmann til að innheimta kröfuna og sendi sá barnsföðurnum innheimtuviðvörun.

Tveimur vikum síðar, upp úr miðnætti aðfararnótt fimmtudagsins 19. mars, bárust móðurinni skilaboð gegnum samskiptamiðilin Facebook. Þau voru frá lögmanni barnsföðursins.

Sæl A. Ég hef ekki tölvupóstinn þinn svonég sendo [sic!] þér skilaboð hér á Favebook. B heiti ég, lögmaður [barnsföður þíns]. Sú krafa sem þú hefur falið [lögmanni] að innheimta fyrir þig á sér enga stoð í lögum. Áður en ég fer með málið lengra vil ég biðja þig vinsamlegast að afturkalla beiðnina til [lögmanns þíns]. Verði það ekki gert fyrir lok föstudags mun ég f.h. umbj. míns höfða mál gegn yður fyrir innheimtu óheimillar kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, auk kostnaðar við málshöfðun gegn yður. Verði þessu erindi ekki svarað fyrir lok föstudags með staðfestingu um að framangreint sé afturkallað, er mér ekki annar kostur fær en að færa málið í framangreindan farveg. Virðingarfyllst, B, lögmaður.

Sniðgekk lögmann gagnaðila

Kvörtunin til úrskurðarnefndarinnar laut að þessum skilaboðum. Samkvæmt siðareglum lögmanna má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn liggi við. Enn fremur ber lögmanni að sýna gagnaðila umbjóðanda tillitssemi og virðingu í ræðu og riti og þá er lagt bann við því að beita ótilhlýðilegum þvingunum til að ná sínu fram.

Að mati móðurinnar og lögmanns hennar braut lögmaður föðursins gegn umræddum greinum. Honum hefði verið fullljóst að lögmaður færi með mál konunnar og hefði honum því borið að hafa samband við hana. Engin haldbær rök væri hægt að færa fyrir því að senda slík skilaboð að nóttu til. Enn fremur fælist í þeim hótun um þvingun.

Lögmaðurinn taldi á móti að fullt tilefni hefði verið til að senda skeytið. Ástæðan væri sú að barn föðursins hefði tekið við innheimtubréfinu og komist í mikið uppnám. Því hefði mikið legið við að koma skikki á málið og þetta verið eina leiðin til þess í ljósi þess að lögmannsstofa lögmanns móðurinnar hafi verið lokuð. Þá kannaðist hann ekki við að hafa gengið of harkalega fram heldur ætti það miklu frekar við um lögmann gagnaðila sem hafi „að lágmarki verið athugaverð þar sem komið hafi verið fram með mun meiri hörku í innheimtuaðgerðum en þörf hafi verið á.“

Málið þoldi bið

Í úrskurði nefndarinnar er bent á að í umþrættum skilaboðum hafi ekki í einu orði verið vikið að meintu uppnámi barnsins. Þvert á móti hafi verið tiltekið að til málshöfðunar kæmi ef beiðni um lögmannsaðstoð við innheimtu yrði ekki afturkölluð.

„Að mati nefndarinnar hefur kærði á engan hátt sýnt fram á að þeir ætluðu hagsmunir, sem hann vísaði til degi síðar gagnvart lögmanni kæranda og greinir jafnframt í málatilbúnaði hans fyrir nefndinni, hafi verið slíkir að heimilað hafi bein samskipti við kæranda með þeim hætti sem gert var og kvörtun í málinu tekur til. Hin umþrættu skilaboð sem kærði sendi til kæranda verða ekki skilin á annan hátt en að tilgangur með þeim hafi verið sá einn að fá kæranda til að afturkalla kröfu úr innheimtu hjá lögmanni gagnvart umbjóðanda kærða,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Með því hafi lögmaðurinn farið á svig við fyrrnefnda grein sem kveður á um að hafa skuli samband við lögmann gagnaðila. Engin brýn nauðsyn hafi staðið til þess og því verið auðvelt að láta samskiptin bíða fram til morguns. Í háttseminni hafi gagnaðila verið sýnd óvirðing og hún enn fremur falið í sér ótilhlýðilega þvingun. Var lögmaðurinn því áminntur fyrir háttsemi sína.