Amish-fólkið er ekki jafn afturhaldssamt og af er látið. Í Lancastersýslu í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjumum ætlar framsækinn verslunareigandi að setja upp fjórar Fujitsu U-Scan sjálfsafgreiðslustöðvar í versluninni Shady Maple Farm Marked. Þannig getur Amish-fólkið rennt varningi sínum sjálft í gegnum skanna og greitt fyrir, án aðstoðar starfsfólks verslunarinnar, samkvæmt frétt á fagvefnum www.selfserverworld.com. Síðan raðar það varningnum upp á hestakerrur sínar og heldur heim á leið. "Við skoðuðum sjálfsafgreiðslustöðvar fyrir nokkrum árum, en tæknin var ekki komin nægilega langt á veg," segir Kevin Porsche, yfirmaður tæknideildar Shady Maple. "Nú er hins vegar hægt að reiða sig á kerfið og við þurfum að tileinka okkur hana til að vera samkeppnishæf. Fjöldi verslana hefur tekið tæknina í notkun og viðskiptavinum virðist líka þjónustan," segir Porsche.