Feðgarnir Jón Ólafsson og Kristján Ólafsson hafa undanfarin 16 ár unnið að því að byggja upp vatnsvörumerkið Icelandic Glacial sem rekur átöppunarverksmiðju á Hlíðarenda skammt frá Þorlákshöfn. Ýmislegt hefur gengið á og reksturinn hefur á köflum staðið tæpt.

Jón hefur verið nær stanslaust á ferðinni síðustu ár að kynna vatnið, bæði fyrir mögulegum kúnnum og fjárfestum. „Það hafa komið augnablik þar sem ég hélt að ég myndi ekki hafa það. Eitt skiptið var ég eiginlega búinn að ákveða að fara til Sýslumanns. En fyrir það fór ég á Jómfrúna með nokkrum vinum mínum þar sem við fengum okkur að borða og vorum aðeins að sulla í bjór. Þannig að ég náði ekki að fara til Sýslumanns. Svo bjargaðist þetta um helgina. Sveitungar mínir úr lífeyrissjóðnum og Sparisjóðnum í Keflavík sáu leið til að bjarga mér, sem var ómetanleg stoð. Af öllum stöðum bjóst ég ekki við að aðstoðin kæmi frá heimabænum Keflavík,“ segir Jón og glottir.

„Amma mín sem ég ólst upp hjá var mjög guðhrædd. Fyrir fermingu fór hún með mig niður í Sparisjóðinn í Keflavík og benti á mann sem var þá gjaldkeri og sagði: „Ef að eitthvað kemur fyrir mig mun þessi maður hjálpa þér með þín fjármál.“ Þessi maður bjargaði mér, þá orðinn sparisjóðsstjóri, Geirmundur Kristinsson. Við áttu ekki í neinum samskiptum í millitíðinni en svo rættist allt í einu það sem amma hafði sagt að myndi gerast,“ segir Jón.

Ofvirkt, lesblint og misskilið barn

Uppeldi Jóns var um margt óvenjulegt. Friðgeir, faðir hans, vildi ekkert með hann hafa og stjúpfaðir hans kærði sig einnig lítt um drenginn. Því ólst hann upp hjá ömmu sinni og afa, skammt frá heimili móður sinnar og bræðra í Keflavík.

Stefnan var ekki endilega sett á viðskipti. „Mig langaði að verða læknir. En afi minn dó þegar ég var 14 ára og frá þeim degi fór ég að búa til peninga sjálfur og við amma vorum tvö eftir. Ég fékk það á tilfinninguna að ég væri orðinn húsbóndinn á heimilinu og þyrfti að sjá fyrir sjálfum mér. Ég byrjaði að þrífa íbúðir og þénaði vel á því. Á sama tíma byrjaði ég að halda böll og vinna með hljómsveitum. Móðir mín var umboðsmaður hljómsveita og var að bóka upp á flugvelli. Þannig að það er ekki óeðlilegt að ég hafi leiðst út í það sama,“ bendir Jón á.

Jón hefur haft orð á sér fyrir að vera í senn harður og slyngur samningamaður með auga fyrir viðskiptatækifærum. Í Jónsbók, ævisögu Jóns eftir Einar Kárason lýsir Bubbi Morthens, Jóni, sínum gamla útgefanda sem „jakkafataklæddum samúræja“ sem „klýfur menn í herðar niður miskunnarlaust.“ „Það er varla til maður með öflugri og beinskeyttari fókus,“ sagði Bubbi en á sama tíma sé „gullhjarta á bak við grímuna.“

En hvaðan kemur drifkrafturinn? „Ég held að ég hafi fæðst svona. Sem krakki var ég alltaf að fá hugmyndir og gera hluti. Ég var ofvirkur, lesblindur krakki sem enginn skildi. Ég var alltaf kallaður Jón bæjó í Keflavík, bæjarvillingurinn. Er það ekki mikið einelti? Ég held að ég hafi orðið fyrir miklu einelti, þó ég hafi ekki hugsað það þannig fyrr en núna. En ég læt aldrei neitt á mig fá og held áfram og hugsa: „Ég mun sýna þeim“.

Ítarlegt viðtal við Jón Ólafsson birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .