Andrea Björnsdóttir var nýlega ráðin í nýja stöðu forstöðumanns hjá Fossum  fjárfestingarbanka. Staðan varð til í tengslum við miklar breytingar hjá fyrirtækinu sem fékk nýlega starfsleyfi sem fjárfestingarbanki. Fossar hafa gefið það út að stefnt sé að skráningu á markað innan þriggja ára og nefnir Andrea að það muni fela í sér miklar breytingar og útvíkkun á starfseminni. „Ég mun meðal annars vinna að innleiðingu nýrra verkferla innanhúss og viðskiptaþróun,“ segir Andrea.

Hún er spennt fyrir nýja starfsumhverfinu þar sem hlutirnir muni gerast hratt og krefjast mikillar aðlögunarhæfni. „Í slíku umhverfi er mikilvægt að missa ekki haus þó að framtíðin og komandi verkefni séu óljós. Enn fremur skiptir máli að geta brugðist hratt við aðstæðum og geta keyrt hlutina áfram af miklum krafti.“

Eftir útskrift frá Háskólanum í Reykjavík hóf Andrea störf í áhættustýringu hjá Íslandsbanka, en færði sig síðar yfir í fyrirtækjaráðgjöf bankans. Þaðan lá leiðin til London þar sem hún lauk meistaragráðu í fjármálum frá London Business School. Í kjölfarið hóf hún störf á fjárfestingarbankasviði Bank of America í London. Andrea segir tímann þar hafa verið dýrmætan skóla og gott veganesti inn í framtíðina.

Andrea og amma hennar eru bestu vinkonur og eyða miklum tíma saman. „Ég slaka sjaldan jafn vel á eins og hjá ömmu. Við getum talað um allt á milli himins og jarðar og hún segir alltaf réttu hlutina.“ Að öðru leyti segist Andrea verja mestu af sínum frítíma í CrossFit en hún fari líka mikið á snjóbretti yfir vetrartímann. Andrea er mikil félagsvera og líður henni best þegar hún hefur nóg að gera, en segir þó mikilvægast að hún fái tíma til þess að eyða með fjölskyldu sinni og vinum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 22. september 2022.